Færsluflokkur: Heimspeki

Skora á þingmenn Samfylkingarinnar að fella tillöguna um að draga fyrrum ráðherra fyrir Landsdóm

Ég hef aldrei dregið dul á mínar pólitísku skoðanir og að ég er flokksbundinn, ég er í Samfylkingunni. Líklega munu margir vilja túlka afstöðu mína sem að ofan greinir sem ákall um að hlífa flokksfélögum mínum.

Það er alrangt, ég hef önnur rök fyrir minni afstöðu og skoðum þau rök sem ég legg fram.

Þegar Ríkisstjórn Geirs Haarde, Þingvallastjórnin, var mynduð um mitt ár 2007 var skaðinn  skeður, Hrunið var óumflýjanlegt, þannig höfðu samstjórnir Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins stjórnað þjóðarbúinu. Það var á ábyrgð þessara tveggja flokka að einkavæða bankana, að afhenda þá fjárglæframönnum sem ekkert kunni  í  bankastarfsemi og rændu síðan bankana innanfrá, lánuðu sjálfum sér himinháar fúlgur til að kaupa ýmis fyrirtæki á yfirverði og þurftu engar tryggingar að setja fyrir þeim lánum sem þeir pumpuðu út úr bönkunum. Þannig sýndu þeir betri stöðu bankanna og notuðu einkum "óefnislegar eignir" svo sem viðskiptavild til að hækka verðgildi þeirra. Andvirði þessar lána hurfu síðan og álítur Vilhjálmur Bjarnason, sem flestir þekkja, að hvorki meira né minna en 6.000 - 7.000 milljarðar hafi þannig verið sognir út úr bankakerfinu og þjóðarbúinu og séu faldir í skálkaskjólum víða um heim. Ekki má gleyma glæpastarfsemi Landsbankans í Hollandi og Bretlandi þar sem saklausir launamenn m. a. voru lokkaðir til að trúa bankanum fyrir sparifé sínu og það liggur í augum uppi að það stóð aldrei til að skila þessu fé til baka. Hvar liggja þessir fjármunir í dag? Án efa að stórum hluta í skálkaskjólum víða um heim og bíða þess að refirnir komst í forðann.

Þetta eru aðeins helstu ástæður Hrunsins mikla og þó tekið sé tillit til hinnar að alþjóðlegu bankakreppu hefði þetta skelfilega hrun aldrei orðið á Íslandi þó við hefðum engan veginn komist hjá einhverjum skellum vegna þeirra áhrifa.

En fyrir hvað á að ákæra fjóra fyrrum ráðherra úr Þingvallastjórninni? Eftir því sem mér skilst er það ekki síst fyrir vanrækslu þó það liggi í augum uppi að þessi Ríkisstjórn, sem tók við um mitt ár 2007, gat engan veginn komið í veg fyrir Hrunið. Sýndi stjórnin vanrækslu? Vissulega má leiða rök að því þó alltaf sé hægt að vara vitur eftirá. 

Á árinu 2007 var öll þjóðin meðvirk í bankabrjálæðinu eða mikill meirihluti hennar. Enginn hlustaði á örfár varnaðarraddir innanlands og því síður þær sem komu frá útlöndum, Danske bank var ekkert annað en nöldur öfundsjúkra Dana og þannig var öll gagnrýni afgreidd, við vorum nánast öll meðvirk. Á þessum tíma lét einn aðalhöfundur hrunsins, Davíð Oddsson fyrrum forsætisráðherra  og þá Seðlabankastjóri, nánast afnema bindiskyldu fjármagns hjá íslensku bönkum, álíka gjörð og að ausa bensíni á brennandi hús.

Gat Ríkistjórn Geirs Haarde, Þingvallastjórnin, gripið til einhverra ráðstafana til að koma í veg fyrir hluta af skaðanum?

Já það gat hún vissulega. Hún gat gengið fram og skýrt þjóðinni frá því að glæpaklíkur innan bankanna væru að steypa þjóðinni fram af fjárhagslegum hengiflugi, hún gat afhjúpað skelfilega óstjórn í Seðlabankanum sem leiddi til þess að hann varð gjaldþrota og upplýst um að við værum með handónýtt Fjármálaeftirlit.

Hverjar hefðu afleiðingarnar orðið?

Líklegt að þá hefðu Hrunið mikla orðið samstundis, þá hefði fjármálablaðran sprungið ári fyrr eða haustið 2007. Ekki vafi á að þá hefði skaðinn orðið mun minni fyrir þjóðarbúið en samt hefði hann orðið gífurlegur.

Hvernig hefði alþjóð brugðist við?

Ég tel allar líkur á því að Ríkistjórninni hefði verið kennt um, hún hefði með því aða upplýsa um ástandið, sem var þó staðreynd, fellt íslenski bankana og kallað yfir þjóðina skelfilegt hrun. Glæpamennirnir bönkunum hefðu fengið samúð, þessir lúðulakar sem almenningur leit á að væru "snillingar".

En hefði Ríkistjórn, sem var samstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks átt möguleika á að grípa til slíkra verka?

Nei, útilokað. Þarna sátu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins þeir Geir Haarde og Árni Mattheisen, menn sem höfðu verið á kafi í því undir forystu Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar að "einkavæða" bankana í orðsins fyllstu merkingu, afhenda þá Bjrögólfunum, Ólafi í Samskip og Finni Ingólfssyni og álíka kónum á spottprís og síðan að gera Davíð Oddsson að æðsta manni peningamála hjá þjóðinni, Seðlabankastjóra.

Hver eru þá afglöp ráðherra Samfylkingarinar?

Að reyna ekki að berja fram það ómögulega, að upplýsa þjóðina um ástandið sem aldrei hefði náðst fram í samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn. Hverra kosta átti Samfylkingin þá?

Að slíta stjórnarsamstarfinu, en þá hefði hún orðið að upplýsa um ástandið í banka- og fjármálum landsins með sömu afleiðingum og raktar voru að framan, Hrunið mikla hefði orðið haustið 2007 sem hefði þó sparað þjóðinni mikið tap.

Hverjum hefði verið kennt um Hrunið mikla? Að sjálfsögðu flokknum sem sleit Ríkisstjórninni og upplýstu um hið rétta ástand þjóðarbúsins, Samfylkingunni, gegn henni hefðu öll öfl snúist hvort sem það voru stjórnmálaöfl að ég ekki tali um bankaræningjanna sem með því hefðu líklega ekki getað hreinsað fjárhirslur bankanna endanlega.

En hversvegna er ég þá á móti að ráðherrar séu dregnir fyrir Landsdóm?

Þar til liggur fleira en ein átæða. Það eru aðeins ráðherrar úr Ríkisstjórn Geirs Haarde sem á að ákæra og vissulega eru ráðherrar úr Sjálfstæðsflokknum í þeirri Ríkistjórn Geir Haarde og  Árni Mattheisen sekir um að vera meðhöfundar að Hruninu mikla haustið 2008. En ég held að flestum sé misboðið hvernig staðið er að þessum ákærum þó eflaust sé þar farið að lögum. Að þeir sem þyngsta sökina bera af að hafa undirbyggt Hrunið, Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson, sitji á friðarstóli og að við þeim sé ekki blakað er eins og blaut tuska framan í hvern þjóðfélagsþegn. Það má heldur ekki gleyma þeim Finni Ingólfssyni og Valgerði Sverrisdóttur.

Þið, sem sátuð í þingnefndinni fyrir hönd Samfylkingarinnar, unnuð mjög margt ágætt í þeirri nefnd eins og nefndarmen allir, þið hafið unnið kappsamlega og margt sem frá nefndinni kom er vandað og orð í tíma töluð. En þið hafið látið draga ykkur inn í lævíst samsæri. Það hefur verið massífur áróður fyrir því undir forystu Morgunblaðsins, og allir vita hver ritstýrir því, að kom allri sök af Hruninu mikla á Þingavallastjórnina, í dag eru það aðeins veikar raddir eins og mín sem andæfa og rekja með rökum hverjir eru sekastir af því að Hrunið varð úr hópi stjórnmálamanna.

Ætla menn að það sé tilviljun að útgerðarauðvaldið hafi komist yfir Morgunblaðið og gert höfuðskúrk Hrunsins, Davíð Oddsson, að ritstjóra og einvaldi yfir. Með því vinnst svo margt, það er auðvelt að trylla þjóðina og leiða athyglina frá Davíð, Halldóri og þeirra líkum, það er hægt að ónýta endurbætur á fiskveiðikerfinu og þeir vona einnig að þeim takist að trylla þjóðina enn frekar og eyðileggja umsóknarferil Íslands að Evrópusambandinu.

Allt er þegar þrennt er, Íslands óhamingju virðist verða allt að vopni. 


Íslandsklukkan í Þjóðleikhúsinu er afburða góð leiksýning

Það var vissulega með nokkuð gagnrýnum huga sem ég tók mér sæti í Þjóðleikhúsinu til að sjá þriðju uppfærslu sem ég hef séð þar á hinu magnaða verki Halldórs Laxness, Íslandsklukkunni. Ég vissi að þar mundi ég sjá ný efnistök Baltasar, hvernig mundi mér líka þau? Enn situr í mér sýningin sem ég sá fyrir 55 árum, en þá var  vígsluverk Þjóðleikhússins tekið til endursýningar vegna Nóbelsverðlauna Halldórs Laxness. Þetta var sýningin sem formaði Íslandsklukkuna sem leikhúsverk, sá sem hvað mest og best vann að þeirri umbreytingu var leikstjóri verksins, Lárus Pálsson. Ég skal vissulega játa það að Jón Hreggviðsson er í mínum huga Brynjólfur Jóhannesson, Snæfríður Herdís Þorvaldsdóttir, Arnas Þorsteinn Ö. Stephensen og Jón Grínvisensis Lárus Pálsson. En ég gerði mér grein fyrir því að það var ekki sami persónuleikinn sem gekk inn í Þjóðleikhúsið sl. föstudag og tvítugi ungi maðurinn sem settist þar í stólinn 1955, þá þegar að fangast alvarlega af leiklistargyðjunni sem hann átti að förunaut í yfir fjóra áratugi.

Vissulega leist mér ekki á sviðið í upphafinu en ég gekk fljótlega inn í þetta nýja umhverfi Íslandsklukkunnar og naut svo sannarlega að heyra hinn meitlaða texta Halldórs og sjá persónur hans persónugerast. Hér er ekki ætlunin að skrifa  leiklistarrýni, miklu frekar að fara nokkrum orðum um eftirminnilega upplifun í leikhúsi. Ég get samt ekki setið á mér að minnast á nokkur þeirra sem ljáðu persónum Íslandsklukkunnar hold, blóð, hreyfingar og rödd, við suma var ég fyllilega sáttur, ekki alveg eins við aðra eins og gengur. Ingvar er þriðji Jóninn Hreggviðsson  sem ég sé þarna á fjölunum. Hann gaf ólánsmanninum Jóni fyllilega allt sem þurfti. Lilja Nótt sem Snæfríður fyllti mjög vel út í þær lýsingar sem koma fram í textanum (álfakroppurinn mjói) en náði ekki alveg að sýna mér þá Snæfríði sem ég vildi sjá. Framsögn hennar var einnig stundum á tæpasta vaði og þar held ég að Þjóðleikhúsið þurfi að gera átak, framsögn hefur að mér fundist frekar vera afturför hjá leikhúsunum. Meira að segja gamli jöfurinn Erlingur Gíslason, sem flutti prologus Halldórs Laxness að ég held frá vígslu hússins, var of kraftlaus svo tæpast heyrðist út í salinn. En mér féll mjög vel túlkun Björns Thors á jungkæranum Magnúsi í Bræðratungu, ólánsmannsins sem drakk frá sér vitið á kvöldin og grét á morgnana. Hann sýndi vel þennan klofna persónuleika.

En umhverfið var ekki sá raunveruleika stíll sem oftast hefur fylgt gamalli íslenskri klassík en sýndi þá ótrúlegu endurnýjun sem leikhúsið ræður yfir. Meira að segja hýðing Jóns Hreggviðssonar með hvellhettum og tússpenna, sem vissulega var á mörkunum, gekk  upp.

Það sem ég gekk inn með hvað gagnrýnast í mínu sinni var að láta konu leika Jón Grindvíking og ég spurði sjálfan mig; á að gera Jón að fífli eða skrípi, það væri skemmdarverk. En Ilmur gerði þetta mjög vel og slapp fyrir horn. Kækurinn sem Lárus Pálsson bjó til 1950, að klóra sér á kálfanum, hefur ætíð fylgt Jóni síðan. Ilmur notaði kækinn því miður of ótæplega, þetta gerist stundum í leikhúsi; ef eitthvað atriði fellur í kramið og vekur hlátur verður freistingin til endurtekninga og mikil, reyndir leikarar eiga ekki að falla í þá gryfju.

En allt tekur enda, svo er um hverja leiksýningu og oft er vandi að ljúka góðu verki. Ekki veit ég hvað Baltasar gengur til að útvatna lokatriðið þegar Jón Hreggviðsson mætir dómkirkjuprestinum, sem Jón Eyjólfsson lýsi mæta vel, með því að troða honum með sinni ektakvinnu Snæfríði Íslandssól inn í hliðarsvalirnar þar sem þó sjást varla. Þetta dró úr skerpu lokanna, Jón á heimleið eftir áratuga streð við yfirvöldin, Snæfríður stendur við orð sín; heldur þann versta en þann næstbesta. Ég er ekki viss um að þeir sem ekki þekkja Íslandklukkuna gerla hafi áttað sig á hvað persónur voru þar á ferð, hver voru karlinn og konan sem varla sáust inn í svölunum, þetta atriði má ekki útvatnast .

En Íslandsklukka Baltasar er geysilega gott leikhúsverk. Hann er trúr hinum magnaði texta Halldórs þó sumir mættu fara nokkuð ákveðnar og skarpar með hann. Engu hefur verið bætt við, mér heyrðist að eitthvað hefði verið fellt út svo sem í samræðum Snæfríðar við föður sinn og hjá kanselíráðinu með sultutauið.

Og að lokum; aldrei bregst Herdís, hún var einstök í sínu litla hlutverki sem móðir Jóns Hreggviðssonar. 


Hvað þarf að brenna margar Biblíur til að mótmæla eða bæta fyrir glæpi og hryðjuverk kristinna manna?

Kolruglaður preláti í Florida vestra, sem stýrir 50 manna söfnuði, hefur sett heiminn á annan með hótun um að brenna slatta af Kóraninum, hinni helgu bók íslam. Sá hinn sami klerkur ætti að líta sér nær og hugleiða hve margar Biblíur, helga bók kristinna, þyrfti að brenna til að mótmæla framferði kristinna manna frá þeim tíma að kristin trú var fundin upp eða í nálægt 2000 ár. Þar á ég ekki við afbrot kristinnar kirkju, það er sérkapítuli, heldur verk kristinna manna sem vissulega höfðu oft presta með í för til að réttlæta verk sín.

Nýjasta dæmið er Íraksstríðið, einhver versti glæpur kristinna manna, Bush og Blair, á síðari tímum. Íraksstríðið var háð undir merkjum þess að koma þyrfti fyrir kattarnef Saddam Hussein einvaldi í Írak sem hafði vissulega marga glæpi á samviskunni. Ástæðan var sú uppgefin að finna þyrfti eiturvopn sem Saddam lumaði á en sem Bandaríkin höfðu á sínum tíma gefið honum, ætluð til að drepa Írani sem höfðu unnið sér það til óhelgi að koma frá völdum gjörspilltum keisara. Írak var á þeim tíma það ríki í Arabaheiminum þar sem lífskjör voru hvað best, menntun góð og kvenfrelsi á mun hærra stigi en í öðrum Arabalöndum. Í dag er Írak rjúkandi rúst, að sumu leyti er búið að skjóta landinu aftur á steinöld, lífskjör skelfileg, mannréttindi lakari en nokkurn tíma undir Saddam.

En Saddam var búinn með öll eiturvopnin sem Bandaríkin gáfu honum svo ástæðan gufaði upp en það skipti ekki svo miklu máli; Bush var alveg sama, hans raunverulega ástæða var að komast yfir olíulindir Íraks auk þess að sýna sinn sjúka hug, hann kallaði sjálfan sig stoltur "stríðsforseta".

Og dindillinn Tony Blair elti hann eins og tryggur smalahundur húsbónda sinn. 

Líklega eru ekki margir sem gera sér grein fyrir að mikið af erfiðleikum hinna ríku vesturlanda í dag eru "timburmenn" nýlendustefnunnar sem flestir hyggja að sé löngu liðin. En svo er aldeilis ekki, nýlendustefnan lifir sínu lífi og er nú að koma þessum dólgslegu hvítu kristnu drottnurum í koll. Á 18. og 19. öld og fram eftir þeirri 20. fóru hvítir kristnir vesturlandamenn eins og stormsveipur  yfir Afríku, Suður-Ameríku og stóran hluta Asíu, deildu þar og drottnuðu, frömdu hvarvetna skelfilega glæpi. Bandríkjamenn höfðu samið viðauka við Biblíuna. Þar var voru svartir menn skilgreindir sem "ekkimenn" sem heimilt var að taka, setja í hlekki og flytja nauðuga til Bandaríkjanna og gera þá að þrælum. Þetta var reyndar í samræmi við Biblína, það stendur í boðorðunum tíu að mann skuli ekki girnast "þræl eða ambátt" nágrannans, skýrar verður það varla að þrælahald er vel séð í Biblíunni

Hvíti maðurinn kristni strádrap frumbyggja gervallrar Ameríku og Ástralíu, allt var þetta gert í nafni Jesú Krists.

Já, það þyrfti dálaglegan stafla af Biblíum til brennslu ef það getur á einhvern hátt bætt fyrir glæpi og hryðjuverk hvítra kristinna manna.  


Hverjum var Hrunið 2008 að kenna?

Nú fara menn mikinn hér á blogginu og eflaust víðar skilst mér þar sem skýrsla Atla Gíslasonar og hans meðnefndarmann er að birtast. Margir bloggarar fara hamförum gegn þeim sem sátu í Ríkisstjórn Geirs Haarde fyrir Samfylkinguna. Þar hafa menn fundið sökudólgana, enginn er þó eins slæmur í þeirra augum og Össur Skarphéðinsson. Það má sjá fingraför eins manns á þessari herferð en það er fyrrum forsætisráðherra, fyrrum Seðlabankastjóri Davíð Oddsson. Það er merkileg söguskoðun að ætla að ráðherrar Samfylkingarinnar í Ríkisstjórn Geirs Haarde beri aðalábyrgð á Hruninu, tæplega minnst á að í sömu Ríkisstjórn sátu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sem höfðu reyndar setið lengi í þeim stólum, fyrst undir forsæti Davíðs Oddssonar, síðan Halldórs Ásgrímssonar og síðast undir forsæti Geirs Haarde. Vissulega er pólitískt minni mann hérlendis heldur gloppótt, en Davíð Oddssyni finnst samt að það þurfi að skerpa á gloppunum og afvegaleiða sem flesta; fyrst og fremst að leiða athyglina frá því að hann bar mesta ábyrgð að rekstri þjóðfélagsins árum saman fyrir hrun.

Ætla menn nokkrum manni að meðtaka þann boðskap frá Hádegismóum að aðalsökudólgar Hrunsins í október 2008 séu þeir ráðherrar Samfylkingarinnar sem tóku sæti í Ríkisstjórn Geirs Haarde um mitt ár 207? Það er vissulega mannlegt að leiða athyglina frá sjálfum sér þegar slæm mál eru í farvatninu. En almenningur er ekki búinn að gleyma því að þeir sem bera meginábyrgð á Hruninu úr hópi stjórnmálamanna eru Davíð Oddsson og Halldór Ásrímsson. Fleiri lögðu þar hönd á plóg svo sem Finnur Ingólfsson, Valgerður Sverrisdóttir, Árni Matthiesen og Geir Haarde auk allra fjárglæframannanna í bönkunum.

Nú er spurningin þessi; á að setja Landsdóm yfir þeim sem voru ráðherrar í Ríkisstjórn Geirs Haarde sem tók við stjórnartaumunum um mitt ár 2007? Þeir sem þar sátu fyrir Sjálfstæðisflokkinn áttu miklu lengri setu í Ríkisstjórn en eru gjörðir manna frá þeim tíma fyrndar?

Sitja þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrómsson þess vegna í öruggu skjóli og þurfa ekki að svara fyrir gerðir sínar?


Þór, Birgitta, Margrét og Þráinn hafa öll svikið sína kjósendur

Ég sá þá meinloku á blogginu  að Þráinn Bertelsson hefði verið kjörinn á þing á vegum Hreyfingarinnar.

Hreyfingin var ekki til við síðustu kosningar og því enginn á hennar vegum í framboði hvorki Þráinn Bertelsson né nokkur annar. Þráinn, og þau þrjú sem flutu með honum á þing voru kjörin sem frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar. Þrjú þeirra yfirgáfu Borgarahreyfinguna og skildu Þráin eftir einan, nú er hann einnig horfinn frá þeirri hreyfingu sem kom honum á þing, Borgarahreyfingin á þar með engan þingmann. 

Þessir fjórmenningar töldu sig fremsta og heiðarlegasta af öllum pottlokaberjurum og fóru inn undir merkjum heiðarleika og endurnýjunar. Öll hafa þau svikið sína kjósendur. Að vera kosinn á þing af ákveðnum hópi kjósenda, hlaupa frá þeim kjósendum í aðra flokka er ekkert annað en lágkúra og svik. Þessir fjórmenningar hafa afhjúpað sig sem spillta stjórnmálamenn.

Var ekki að  þeirra áliti  nóg af þeim fyrir?


Þetta er reginhneyksli, geirfugl er líkur geirfugli

Þessi fugl er því miður  útdauður vegna græðgi mannskepnunnar. Suðurnesjamenn vildu heiðra minningu þessa horfna fugls og reistu honum minnisvarða, styttu þar sem reyndar eiga a koma fleiri styttur af útdauðum fuglum.

En þá verður allt vitlaust. Það kemur í ljós að styttan af geirfugli á Suðurnesjum líkist styttu af styttu af geirfugli í Reykjavík. Þetta er þegar talið af sérfræðingum sem hugverkastuldur. Þannig hlýtur geirfuglinn á Suðurnesjum eiga að líkjast einhverju allt öðrum fugli en útdauðum geirfugli, var ekki hægt að hafa hrafn eða grágæs sem fyrirmynd til að komast hjá hugverkastuldi?

Þetta hlýtur að leiða til þess að enginn listamaður má birta styttu af geirfugli framar.

Og af hverju?

Vegna hættunnar á að geirfuglsstyttan líkist geirfugli og þar með geirfuglsstyttunni í Reykjavík.

Stundum gera listaverkafræðingar sig að athlægi. Ég legg til að Suðurnesjamenn fjarlægi hið snarasta styttuna af geirfuglinum og reisi á staðnum styttu af "listaverkafræðingnum" Knúti Brun, þetta getur veri smástytta, svona í geirfuglsstærð. En þá skal enginn dirfast að gera styttu af Knúti Brun og stilla henni upp, hún gæti líkst Knúti Brun og er þar með hugverkastuldur!


Athugasemd til Tryggva Gíslasonar sem er færi inn í mitt blogg

Tryggvi, þú ert einn af þeim mönnum sem ég hef fylgst með á minni löngu ævi, allar götur frá því þú varst fréttamaður á góðu gömlu gufunni og alltaf haft dágott álit á þér.

Að ofan kemur þú inn á eitt mikilvægasta hlutverk þeirra sem hafa verið kjörnir til trúnaðarstarfa á Alþingi. Ég veit, og það vitum við öll, að Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir tók við skelfilegasta búi sem nokkur Ríkisstjórn Íslands hefur fengið til úrlausnar. Þessi Ríkisstjórn hefur unnið þrekvirki en eflaust orðið oft á og ekki ráðið við öll verkefnin. Ég ber ómælda virðingu fyrir þeim Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni, það eru þau tvö sem með órofa samstöðu  eru að draga okkur upp úr feni hrunsins. Mér finnst grátlegt að heyra og sjá stjórnarandstöðuna á þingi, þar er engin jákvæð rödd til, aðeins gamaldagsnöldur eins og best þótti á Hriflutímanum. Þó ég taki þannig til orða er ég þar engan veginn að vega að einum framsæknasta stjórnmálamanni Íslands fyrr og síðar, Jónasi frá Hriflu.

En stjórnarandstaðan á Alþingi er sífrandi hjörð vælukjóa sem halda að það eitt sé pólitík minnihlutans að vera sífellt á móti. Þeir eru vissulega samtaka þar Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins og Þór Saari talsmaður Hreyfingarinnar sem öllu ætlaði að breyta, allt ætlaði að bæta. 

Af hverju hefur Framsóknarflokkurinn ekki bætt við sig nokkru fylgi í skoðanakönnunum?

Af því að maðurinn sem áttu mesta möguleika í íslenskri pólitík til að hefja sig yfir dægurþrasið og gefa íslenskri pólitík nýjan tón, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sökk á kaf í þraspyttinn og lítilmennskuna, hann eyðilagði gjörsamlega möguleika Framsóknarflokksins til að verða endurnýjað afl í íslenskri pólitík og byggja aftur á samvinnuhugsjóninni sem á tvímælalaust að endurreisa á Íslandi. En arftaki Jónasar, Hermanns, Eysteins og Steingríms  kaus í þess stað að verða frosinn þrasbelgur sem hefur ekki bætt neinu við fylgi þess flokks sem kaus hann sinn foringja.

Sjálfstæðisflokkurinn er á algjöru valdi manns sem var eitt sinn glæstur foringi, Davíð Oddsson. Veikindi hans eru staðreynd, hann skilur ekki sinn vitjunartíma og þeir sem gerðu hann að ritstjóra Morgunblaðsins eru óhappamenn Íslands. Landfundur Sjálfstæðisflokksins sat skellihlæjandi undir ömurlegri ræðu Davíðs Oddssonar þegar bæði fyrrum fylgismenn hans og andstæðingar fylgdust með og hugsuðu það sama; hann átti skilið betra en að gera sjálfan sig að trúði

 Og þessi sami landsfundur kaus aftur drenginn úr Garðabæ með silfurskeiðina í munninum sem formann sinn, drenginn sem í dag þorir ekki að kvaka eitt orð nema fá til þess leyfi frá Hádegismóum. Þetta er flokkurinn sem hafði ekki vit á því að kjósa sem foringja sinn þrautreyndan mann til sjós og lands, Kristján Þór Júlíusson fyrrum bæjarstóra og sjómann. Mann með þá reynslu sem er mikilvæg fyrir þann sem tekur að sér forystuhlutverk í íslenskri pólitík.

Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum á það fámenna lið sem telur sig til Hreyfingarinnar, Þetta ruglulið sem ætlaði öllu að bjarga en eru í dag ekkert annað en innantómir þrasbelgir sem koma ekki fram með eitt einasta jákvætt kvak.

En hvers vegna er ég að harma það að flokkar, sem ég fylgi ekki, hafa  verið svo seinheppnir í að velja sér lélega forystu? Ætti ég ekki að vera ánægður með það að dusilmenni séu í forystu í mínum andstöðuflokkum?

Nei, svo langt frá því. Við þurfum öll á því að halda að hinir víðsýnustu og hæfustu séu í forystu í öllu þeim öflum og flokkum sem fulltrúa eiga á Alþingi. Það er höfuðnauðsyn til að við getum myndað öfluga Ríkisstjórn til að takast á við þau vandamál sem þjóðin glímir við. 

Hinsvegar er ég nú svo gamall sem á grönum má sjá; mér finnst vandamál íslensku þjóðarinnar i dag ekki vera nema stormur í vatnsglasi miðað við hvaða erfiðleika var við glíma fyrr á árum.

Tryggvi, þetta átti aðeins að vera stutt athugasemd en orðið nokkuð lengri en ég ætlaði. Taktu það ekki illa upp þó ég afriti hana og lími inn í eigið blogg. 


Björn Lomborg gengur í lið skattheimtumanna

Það er víst til lítils að ræða loftslagsmál lengur, svo rækilega er búið að "trylla lýðinn" lesist pólitíkusa heimsins með því endemisbulli að maðurinn sé þess megnugur að hækka hita á hnettinum. Mannskepnan hefur aldrei, sem betur fer, verið fær um slíkt og er þess vegna með öllu ófær um að lækka heimshitann að sjálfsögðu.

Björn Lomborg, danskur hagfræðingur, var lengi einn af þeim sem hélt fram heilbrigðri skynsemi í loftslagsmálum en hefur nú snúist á sveif með "stóra apparatinu", Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, en segist hins vegar ekki hafa skipt um skoðun! En það liggja miklir peningar í  "stóra apparatinu" sem hefur ekki hikað við að falsa vísindaniðurstöður. Þar má nefna Hokkýstafinn sem falsarin Michael Mann skapaði en hefur nú orðið að draga til baka og viðurkenna fölsun sína og sá yfirgengilega fráleiti spádómur að allir jöklar Himalaja verði bráðnaðir 2035 og hundruðir milljóna manna verði vatnslausar á Indlandsskaga! Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur orðið að viðurkenna að þessi kenning er ekkert annað en bull og fals.

Meðalhiti í heiminum hefur á þeim tíma sem þessi hnöttur hefur verið byggilegur ýmist hækkað eða lækkað og orsakirnar eru nær alfarið frá sólinni, þó hefur það áhrif hvar jörðin er í Vetrarbrautinni, hnötturinn er á stöðugri hreyfingu í Vetrarbrautinni, á ekki einhvern fastan punkt þar.

Það eru miklir hlutir að gerast í sólinni núna og þær miklu hræringar munu standa allt fram á árið 2012. Þessar hræringar hafa mikil áhrif á hnettinum, þangað má rekja ójafnvægið; skógarelda á vissum svæðum jarðarinnar en gífurleg flóð á öðrum, fellibylji, eldgos og jarðskjálfta.


Ég svaraði Þórhalli Heimissyni presti, sem ég ber virðingu fyrir, en því ekki að birta það beint á mínu bloggi?

Þú kemur mér á óvart Þórhallur með hvað þú ert afdráttarlaus í þínu máli eins og fyrirsögnin að þínum pistli ber vott um, að þessu finnst mér vera fengur að prestur fer ekki í felur. Svo þú vitir hvar ég stend þá sagði ég mig úr Þjóðkirkjunni fyrir nokkrum árum. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að öll trúarbrögð eru hjóm og hismi og voru fundin upp til að sefja lýðinn og ég er ekki hissa á að fólk í gegnum skelfingar fyrri alda þyrftu á einhverju að halda til að geta lifað af daglegar hörmungar.

Ég  var viðstaddur nafngjöf og skírn yndislegs drengs í dag, móðirin er stjúpdóttir míns elsta sonar. Presturinn fór með trúarjátninguna sem ég hef oft heyrt, en samt brá mér. Í henni lýsa menn yfir trú á guð, hans son Jesú og heilagan anda. Lengi hélt ég að kristin trú væri eingyðistrú, guðinn væri aðeins einn en þarna kemur fram að í kristinni trú eru þeir þeir þrír. Og ekki nóg með að kristnir menn eigi að trúa á þrjá guði heldur heyrði ég í fyrsta skipti, eða tók eftir, i að við eigum að trúa á þann fjórða.

Og hver skyldi það vera?

Jú, kristnir men eiga að trúa á heilaga kristna kirkju auk þessara þriggja guða.

Sem sagt, við eigum að lýsa því yfir að stofnun sú er hin látni brotlegi biskup, Ólafur Skúlason, var biskup yfir sé guðs ígildi og þar með fjórði guð kristinna manna.

Þórhallur, mér finnst margt af því sem þú ert að gera lofsvert, það gætirðu gert hvort sem þú ert prestur kristins safnaðar eða ekki.

En nú ætla ég að leggja fyrir þig samviskuspurningu sem ég á enga heimtingu á að þú svarir, kannski eru aðrir ábyrgari fyrir svarinu.

Við höfum í þjóðfélaginu gífurlega sterkt afl sem heitir Frímúrarareglan. Er það ekki nánast víst að allir þeir sem studdu Óaf Skúlason og reyndu að hylma yfir hans lífernu, meira að segja áður en hann var kjörinn biskup, sé samsvarin klíka í Frímúrarareglunni? Er Hjálmar Jónson dómkirkjuprestur í reglunni, er Pálmi Matthíasson í reglunni, er Vigfús Þór í reglunni og síðast er ekki síst; er núverandi biskup Karl Sigurbjörnsson í reglunni?

Mér finnst ekki úr vegi að þeir sem ég hef nefnt að framan svari undanbragðalaust.


Stríðið gegn lúpínunni verður að stöðva

Líklega í fyrsta skipti get ég tekið undir það sem Halldór Jónsson verkfræðingur í Kópavogi segir á bloggi sínu og setti inn hjá honum þessa athugasemd:

Halldór, það er æði sjaldan að ég er sammála þér en nú er ég það svo sannarlega. Ég veit ekki undir hvað á að flokka eyðileggingu harðgerðustu og duglegustu landgræðslujurt Íslands sem ásamt melgresinu hefur grætt upp land með undraverðum árangri, þarna er á ferðinni heimska ásamt fordómum. Þessi vitleysa er líklega runnin undan rifjum Hjörleifs Guttormssonar en það skiptir ekki höfuðmáli hvaðan vitleysan kemur; það verður að stöðva þess bévítis heimsku sem er álíka vitlaus og hvalveiðibannið sem harðjaxlinn Kristján Loftsson hefur nú brotið á bak aftur.

En þessi áróður gegn lúpínunni er því miður búinn að ná tökum á ótrúlega mörgum landsmönnum og þó nokkur sveitarfélög, í svipinn man ég eftir Ísafirði, eru farin í stríð gegn þessari duglegu landgræðslujurt. Ekki veit ég hvers vegna þessir tveir embættismen, Sveinn og Jón, láta draga sig inn í þessa vitleysu. Ég hef spurnir af því að skógræktarmen hafi fordæmt þessa heimsku og vonandi getum við sett traust okkar á Jón Loftsson skógræktarstjóra, þessa vitleysu, stríðið gegn lúpínunni, verður að stöðva.

Tek undir með þér Halldór að sem flestir ættu að kíkja inn til Ágústar H. Bjarnasonar, í hans kolli virðist skynsemin jafnan ráða ríkjum, farið inn á www.agbjarn.blog.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 113922

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband