Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Söm er þeirra gjörðin stórveldanna tveggja, Kína g Bandaríkjanna

Friðarverðlaun Nóbels voru að venju afhent í Osló 10. des. Að vísu ætti að vera búiðað nefna þessi verðlaun nýju nafni, þau eru miklu fremur frelsisverðlaun en friðarverðlaun. Í ár var reisn yfir norsku Nóbelsverðlaunanefndinni undir forystu Thorbjörn Jagland, meiri reisn en árið 2009 þegar nefndin sleikti sig upp við Obama bandaríkjaforseta öllum til undrunar, ekki síst Obama sjálfum.

Nú var það kínverski andófsmaðurinn Liu Xiaobo sem verðlaunin hlaut, maður sem nú situr í fangelsi einhversstaðar í Kína fyrir að hafa barist fyrir pólitísku frelsi í sínu stóra heimalandi. Kínversk stjórnvöld eru æf yfir verðlaunaveitingunni og höfðu í hótunum gegn öllum þeim ríkjum sem voguðu sér að senda fulltrúa á verðlaunaafhendinguna, sem betur fer hundsuðu flestar ríkisstjórnir þessar hótanir, það gerðum við hérlendis einnig.

Einhvern tíma mun sú stund renna upp vonandi að Liu Xiaobo fái uppreisn æru og auði stóllin með verðlaunaskjalinu verði Kínverjum til ævarandi skammar. Sú stund rennur upp vonandi sem fyrst að Liu Xiaobo fái að sýna sömu reisn í sínu ættlandi og Selson Mandela í Suður-Afríku. Það tókst að knésetja það alræðisríki og frelsa Nelson Mandela úr 29 ára prísund. En nú upplifum við að það er verið að kyrkja þjóð, þjóð Palestínumanna. Sú þjóð er eins og fugl sem óargadýrið Ísrael heldur kverkataki á og er hægt og bítandi að kvelja úr líftóruna. Ekki er annað að sjá en fasistaríkinu muni takast sitt ætlunarverk.

En það eru ekki aðeins meintir íslamskir hryðjuverkamenn sem Bandaríska leyniþjónustan lætur leita uppi til að myrða. Bandríkjamenn hafa fengið nýjan óvin, vefinn Wikileaks og þó sérdeilis aðalhöfund síðunnar og stjórnanda, Julian Assange. Flestir eru sammála um það, sem skoða mál af sanngirni, að á Wikileaks hafi aðeins birst sérdeilis krassandi upplýsingar, aðallega frá stjórnsýslu Bandríkjanna, ekki síst frá sendiráðum stórveldisins. Enginn sakar Wikileaks fyrir að hafa brotist inn og stolið gögnum, einhverjir innanbúðarmenn í stjórnsýslu stórveldisins ofbýður margt sem þar gerist og vilja koma því fyrir sjónir almennings. Stjórnendur Wikileaks, hvort sem þeir heita Júlían eða Hrafn hafa engin lög brotið. Samt hefur málmetandi fólk (ef þannig má til orða taka) krafist þess að hryðjuverkamorðingjar verði sendir út af örkinni og linni ekki ferðinni fyrr en Julian AssAssange hefur af lífi verið tekinn. Þar fer fremst í flokki fyrrum frambjóðandi til varaforsetaembættis Bandaríkjanna, repubikaninn Sara Palin og marga fleiri má þar nefna.

Hjá þessum stórveldum er krafan sú sama og aðferðirnar þær sömu. Einstaklingar sem lýsa sannfæringu sinni eða koma óþægilegum upplýsingum á framfæri til almenning, svo sem myndbandi af því þegar þyrluhermenn bandarískir strádrepa saklausa borgara í Bagdad, skulu réttdræpir. Þó eru Kínverjar ögn skárri, þeir láta fangelsin nægja sem er þó nógu  viðbjóðslegt til að hefta skoðanafrelsið en Bandríkjamenn vilja gera út leigumorðingja sína til að drepa þá sem setja óþægilegar upplýsingar á netið.

Söm er þeirra gjörðin stórveldanna tveggja, Kína g Bandaríkjanna!


Palli er ekki einn í heiminum, það ættu stjórnvöld að reyna að skilja

Það hefur vissulega vakið athygli að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram viðamiklar tillögur í efnahags- og skattamálum. Um þessar tillögur tókust þeir á Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Björn Valur Gíslason varaformaður Fjárlaganefndar Alþingis í Kastljósi í gærkvöldi. Mér heyrðist að inntak tillagna Sjálfstæðismanna væri að afturkalla margskonar hækkanir á sköttum, sem Ríkisstjórnin hefur innleitt, draga stórlega úr niðurskurði fjárveitinga. Þetta mundi skapa ný störf, hækka þar með skatttekjur og efla hagvöxt. Gallinn við þetta sýnist mér vera sá að aukning skatttekna vegna fjölgunar starfa gerist ekki samstundis það tæki nokkur ár að skila sér.

En ég komst yfir eintak af Fréttablaðinu í morgun (sem er ekki auðvelt í Þorlákshöfn) og þar með fylgdi sérblað Markaðarins. Ég hef gagnrýnt fjölmiðla hér að framan og raunar haft um ástand íslenskra fjölmiðla orðið að það sé skelfilegt, þar vanti nær alfarið fréttaskýringar sem upplýsi alþýðu á heiðarlegan hátt um gang þjóðmála. En í Markaði Fréttablaðsins er opna þar sem skattabreytingar Ríkistjórnarinnar eru teknar til gegnumlýsingar og sú mynd sem þar er dregin upp er ekki svo jákvæð sem óskandi væri. 

Það er vitað að Ríkissjóður þarf auknar tekjur, um það þarf ekki að deila. Það virðist vera auðvelt að setjast yfir skattalög og segja einfaldlega "þessir geta borgað meira, og þessir og þessir". En þá kemur bakhliðin í ljós og ég rengi ekki vitnisburð manna sem gjörþekkja atvinnurekstur og skattakerfið. Það er grunnhyggni að hækka skatta en gera sér ekki grein fyrir jafnframt hvort þessir skattar skili sér í Ríkiskassann. Þarna er ekki átt við skattaundanskot heldur það sem ætti að liggja í augum uppi; Ísland er ekki eyland í efnahagsmálum og ef við ætlum að reisa landið úr rústunum, sem misvitrir banka- og stjórnmálamenn komu okkur í, þá verðum við að laða að okkur fjármagn, fyrirtæki og hugmyndir. Okkur getur greint á um hvort það skuli vera í formi lána eða fjárfestinga en látum það liggja á milli hluta að sinni.

Eftir þessa ágætu könnun Markaðar Fréttablaðsins get ég ekki betur séð en að Ríkisstjórnin sé á margan hátt á skaðlegum villigötum í skattlagningu, skattar eru lagðir á ýmis milliríkjaviðskipti en það verður til þess að það flæði fjármagns, sem reiknað er með inn í landið, skilar sér ekki. Í stað þess að greiða götu fjárfestinga inn í landið eru reistar gamaldags skorður sem skaða. Það virðist því vera ýmislegt í gagnrýni Sjálfstæðismanna á þessu sviði sem ekki er hægt að skella skollaeyrum við.

Ég vona að Ríkisstjórnin falli ekki í gryfju þvermóðskunnar, geti ekki brotið odd af oflæti sínu, það er oft erfitt að viðurkenna mistök sín en það er enginn maður að minni þó hann geri það. Og ef eitthvað er að marka það að Ríkisstjórnin vilji hafa samráð við stjórnarandstöðuna þá verður hún að hlusta á hana þegar koma tillögur sem kunna að vera gagnlegar.


Hvað sagði Mark Flanagan um árangur íslenskra stjórnvalda eftir hrun?

Samstarf Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa verið umdeilt hér á landi. Ekki hefur þó tekist að benda á nokkuð sem sýni  að AGS segi íslenskum stjórnvöldum fyrir verkum og ég álít að við værum í dag ver stödd ef við hefðum ekki tekið upp samstarf við AGS. Mark Flanagan hefur frá upphafi verið formaður sendinefndar AGS hér á landi frá því samstarfið hófst en lætur nú af því starfi.

Hann metur ástand efnahags- og þjóðmála á eftirfarandi hátt og ég held að álit hans sé öllum holl lesning:

 „Það var fullt tilefni til að ætla að ástandið yrði slæmt á meðan
kreppan stæði yfir. En íslenska hagkerfið virðist hafa náð jafnvægi
fyrr en við reiknuðum með. Ég veit að það mat kann að vera umdeilt á
Íslandi, en ef við horfum á alla helstu hagvísa þá sýna þeir þann
árangur. Neysla virðist hafa náð jafnvægi í lok síðasta árs,
vinnumarkaður hefur náð jafnvægi, verðbólga hefur lækkað mikið og
gjaldmiðillinn hefur jafnað sig frábærlega á síðustu mánuðum. Margir
þeirra lykilþátta sem eru nauðsynlegir til að ná efnahagslegum
stöðugleika hafa orðið að veruleika á síðustu tveimur árum.“

„Það hefur því mjög margt náðst fram hvað varðar aðlögun íslenska
efnahagslífsins að nýjum veruleika. Ísland er að mörgu leyti langt á
undan öðrum löndum í sínum bata sem hafa lent í svona vandræðum"

„Það er líka mikið afrek að íslenskum stjórnvöldum hefur tekist að
fara í gegnum þessa aðlögun á sama tíma og þeim hefur tekist að
viðhalda meginundirstöðum norræns velferðarkerfis og án þess að gera
eðlisbreytingu á því sem við hjá AGS teljum vera mjög einfalt og
afkastamikið skattkerfi.“

„Það er ekki hægt að vinna sig upp úr svona stórri kreppu á skömmum
tíma. Þar er enn margt sem þarf að gera til að gera efnahag landsins
stöðugan á ný og það tekur tíma að vinna úr skuldabagga af þeirri
stærðargráðu sem Ísland glímir við.“

“Reynslan úr fyrri kreppum segir okkur að endurskipulagningarferli
fyrirtækja taki vanalega á bilinu 18-36 mánuði. Núna erum við stödd
nokkurn veginn í miðju þess tímaramma.”
 


Þetta er athugasemd við bloggi andstæðings aðildarviðræðna Íslands við ESB

Ég veit ekki af hverju ekki er hægt að ræða jafn mikilvægt mál og aðildarumsókn Íslands að ESB án þess að grípa til útúrsnúninga. Það er sérkennilegt að segja að Joe Borg hafi verið boðið til Ísland til trúboðs. Eitt er víst, trúboð á heima hjá trúflokkum, ekki í alvarlegri umræðu um mikilvæg þjóðmál. Joe Borg var boðið hingað til lands til að miðla reynslu sinni og þekkingu, en hann leiddi aðildarviðræður Möltu við ESB. Þarftu Jón Baldur að grípa til svo lágkúrulegra meðala að reyna að lítillækka mann sem Joe Borg með því að koma því inn að hann hafi síðar, eftir inngöngu Möltu orðið hálaunaður embættismaður hjá ESB. Fyrst sagðirðu 4 milljóna maður en nú ertu búinn að lækka launin um 25%, nú eru þau 3 millj. Eftir inngöngu hvers lands skipar það fulltrúa sinn hjá ESB og var ekki eðlilegast að Malta skipaði sinn reyndasta mann. Er málefnafátækt þín slík að þú þurfir að reyna að lítillækka þennan ágæta gest? Og má ég spyrja; af hverju þorðir þú ekki að koma á fyrirlestur Joe Borg í Háskólanum í Reykjavík sl. laugardag?

Malta er lítil eyja með 400.000 íbúa svo það liggur í augum uppi að við höfum margt af þeim að læra þegar af þeirra reynslu af aðildarviðræðum og inngöngu. Það sem kemur hér fram að ofan, að Ísland sé að bera sig saman um fiskveiðar við Möltu og reynslu þeirra, þá er það alrangt. Maltverjar eiga nánast engin fiskiskip nema minni báta sem veiða aðallega innan 50 mílna frá landi og hlutur fisveiða og vinnslu er örlítið brot að þeirra þjóðarframleiðslu, algerlaga öfugt við Ísland. 

Það kom margt athyglisvert fram hjá Joe Borg og því hefur ekki verið gerð skil ef undan er skilið Silfur Egils. Eitt það athyglisverðasta var þetta:

Fisveiðistefna ESB er í algjörri endurskoðun. Það er því tilgangslaust að mála skrattann á vegginn og búa til einhver ákvæði um að hér yrðu Spánverjar, Portúgalar og fleiri ESB þjóðir komnar með rétt til veiða innan okkar lögsögu ef við göngum í ESB enda mundum við ALDREI samþykkja slíkt. Joe Borg taldi að við þessa endurskoðun gæti svo farið að ESB mundi frekar aðalaga sig að fiskveiðistefnu Íslands en öfugt. (Þá er örugglega ekki verið að miða við okkar skelfilega kvótakerfi með frjálsu framsali, sölu og leigu).

Hann benti einnig á hve nauðsynlegt það væri að öll hagsmunasamtök og allur almenningur í umsóknarlandinu fengju stöðugt upplýsingar um gang mála þegar umsóknarviðræður væru komnar á skrið. Þá kom skemmtileg spurning úr sal; hvað eigum við þá að gera við samtök eins og Bændasamtökin sem vilja ekkert heyra, ekkert kynna sér, loka alfarið öllum dyrum og gluggum. Í eina skiptið varð Joe Borg orðfall og viðurkenndi hreinlega að við slíku hefði hann ekkert svar, hefði ekki reynslu af slíkum heimóttarskap.

Bar Ríkisstjórn Geirs Haarde, Þingvallastjórnin, ábyrgð á hruninu í okt. 2008?

Skýrsla nefndar Atla Gíslasonar um stjórnsýslu, hrunið 2008, og um hugsanlega ráðherraábyrgð og hvort kalla eigi saman Landsdóm hefur verið birt. Ég hef ekki séð skýrsluna ennþá en hef hlustað grannt eftir því hvað er sagt og ályktað í henni eins og fram kemur í fréttum. Ekki síður það sem EKKI er minnst á í skýrslunni, það er kannski það athygliverðasta. Undanfarið hefur verið rekinn þungur áróður fyrir því í blöðum og bloggum að hrunið sé að kenna Ríkisstjórn Geirs Haarde, samsteypustjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, sem mynduð var um mitt ár 2007. Atli Gíslason og meðnefndarmenn hans reka síðan smiðshöggið á þennan áróður með nefndaráliti sínu, sem að vísu ekki er samhljóða.

Eitt er víst. Þegar Þingvallastjórnin var mynduð 2007 var búið að stjórna þannig á Íslandi af stjórnmálamönnum og fjármáglæframönnum í bönkum og fjármálafyrirtækjum að Hrunið mikla var á leiðinni, aðeins spurning um hvenær blaðran mundi springa. Þar höfðu um vélað fjármálbraskararnir sem fengu óáreittir að braska með íslenska hagkerfið og raka til sín milljörðum sem nú er faldir í holum á Tortúla og öðrum skálkaskjólum sem finnast um víða veröld. Þar brást Seðlabankinn gersamlega, Fjármálaeftirlitið einnig og þær Ríkisstjórnir sem sátu að völdum frá aldamótum. En þrátt fyrir þessa óvefengjanlegu staðreynd, að grundvöllurinn að Hruninu var kyrfilega lagður á árunum eftir aldamótin, er ekki einn einasti af þeim ráðmönnum, stjórnmálamönnum og fjárglæframönnum, sem þá stýrðu öllu hérlendis nefndur á nafn í skýrslu nefndar Atla Gíslasonar.

Hvar er nöfnin Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Árni Mattheisen, Finnur Ingólfsson og Valgerður Sverrisdóttir í skýrslunni svo helstu arkitektar hrunsins úr röðum stjórnmálamanna séu nefndir.

Já, þetta er að takast með samræmdur áróðri í blöðum og bloggum að fá almenning til að gleyma   hverjir ábyrgðina báru. Vissulega voru sekir menn í Þingvallastjórninni, helstu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins voru búnir að sitja í ráðherrastólum í fjölda ára, áranna þegar öllu var sleppt lausu og hin skelfilega fjármálabóla blásin upp, fjármálabólan sem sprakk með hvelli í október 2008.

En brást Þingvallstjórnin skyldum sínum?

Hún var með lokuð augun eins og nær allir landmenn sem horfðu með glýju á bóluna miklu og trúðu því bulli að Ísland væri á leið að verða ein helsta fjármálamiðstöð heimsins.

En átti Þingvallastjórnin ekki að grípa inn í þessa óheillaþróun sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn voru búnir að leggja grunninn að?

Jú, hún átti tvímælalaust að gera það. Að vísu hefði stjórnin og ráðherrar hennar verið úthrópaðir sem skemmdarverkamenn. Vegna þess einfaldlega að þá hefði Hrunið dunið yfir ári fyrr, segjum í október 2007. Grundvöllur að hruninu var lagður að kempunum sem ég taldi upp fyrr: Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Árni Mattheisen, Finnur Ingólfsson og Valgerður Sverrisdóttir. Enginn bar þó meiri ábyrgð en Davíð Oddsson sem lengstum var forsætisráðherra, í stuttan tíma utanríkisráðherra og síðast en ekki síst: Formaður bankastjórnar Seðlabankans.

En þessi framangreinda hjörð á greinilega að sleppa  með öllu.

Þar sem ég er nýbúin að sjá Íslandsklukkuna í Þjóðleikhúsinu detta mér í hug þau fleygu orð sem Laxness leggur Jóni Hreggviðssyni í munn:

"slæmt er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti"


Engir útlendingar fá veiðiréttindi í íslenskri lögsögu þó við göngum í Evrópusambandið

Ég hef lengi vonað að umræðan hérlendis um hugsanlega inngöngu Íslands í Evrópusambandið yrði málefnaleg. Ég hef ekkert við það að athuga að margir séu andvígir inngöngu í ESB, en ef litið er á það sem frá andstæðingum inngöngu hér á blogginu kemur er ekki hægt að neita því að þar hafa komið fram allskyns fullyrðingar sem eiga enga stoð í veruleikanum. Ungir bændur vara við herskyldu ungra Íslendinga ef við göngum í ESB og fjölmargir hanga endalaust á fiskveiðistefnu ESB sem eitthvað sem sé óumbreytanlegt. Það er örugglega algjör samstaða um það hérlendis að við munum ALDREI gefa eftir yfirráð okkar yfir fiski og fiskveiðum í okkar lögsögu. Það get ég fullyrt sem fylgismaður inngöngu ef við fáum svo hagstæðan samning að það tryggi betur tilveru og efnahag Íslands auk margra annarra  kosta.

Ég hef oftar en einu sinni skrifað um þessi mál á blogginu og haldið því fram að við gætum náð samningum við ESB um inngöngu Íslands og jafnframt haft tryggt yfirráð yfir auðlindum hafsins, bæði í botni og sjó í okkar lögsögu.

Það er ánægjulegt að hlusta á aðalsamningamann okkar við ESB þegar hann segir:

Stefán sagði það vera á kristaltæru að aðrar þjóðir hefðu ekki veiðiréttindi við Ísland, því hér hefðu engir aðrir verið að veiða í yfir 30 ár! Hann sagði þetta mæta skilning innan ESB og að framkvæmdastjórnin myndi t.d. ekki styðja kröfur Spánverja um fiskveiðiréttindi hér við land. ,,Enginn annar en við eigum rétt hér við land," sagði Stefán á fundinum.

Er þetta ekki kristalstært, þurfum við að halda áfram að fullyrða að við verðum við inngöngu að gangast undir stórgallaða fiskveiðistefnu Evrópusambandsins sem þeir eru þar að auki að gefast upp á?


Vilborg G. Hansen hikar ekki við að fara með rangt mál varðandi viðræður Íslands við Evrópusambandið

Ég veit af fyrri reynslu að það er skörp sía hjá Vilborgu á athugasemdum, þó hefur hún birt athugasemd Sigurðar Grétarssonar þar sem hann leiðréttir rangfærslur hennar sem eru þær sömu og Jón Bjarnason ráðherra setti fram í forsíðuviðtali Morgunblaðsins; að við séum í aðlögunarferli í viðræðunum við ESB. Ég tek mér það bessaleyfi að afrita athugasemd nafna míns og líma hana hér inn. Þetta eru orð í tíma töluð:

Þetta er rangt hjá þér. Hér er aðeins verið að greina hvað þarf að gera til að íslensk stjórnsýsla standist ESB reglur auk þess að gera tímasetta áætlun um  það hvernig henni skuli hrint í framkvæmd fari svo að aðild verði samþykkt. Ef aðild verður ekki samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu þá verður áætluninni ekki hrint í framkvæmd. Þetta kemur meðal annars skýrt fram í viðtali Kastljóss þann 1. semptember við Stefán Hauk Jóhannesson aðalsamningamann Íslands í samningunum við Evróusambandið. Viðtalið má sjá hér:

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4544920/2010/09/01/0/

Í þessu viðtali kemur skýrt fram að samningaferlið og aðlögunarferlið eru sitthvort ferlið. Aðlögunarferlið hefst eftir að búið er að samþykkja aðild Íslands að ESB og getur tekið allt að tvö ár. Það er fyrst eftir að því er lokið, sem við göngum formlega í ESB. Þetta ferli feri hins vegar ekki í gang ef aðild verður ekki samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það að þjóðaratkvæðagreiðslan verði ekki formlega bindandi gefur okkur ekkert tilefni til að óttast að við göngum samt inn í ESB þó aðild verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Í fyrsta lagi þá er mjög ólíklegt að ESB myndi vilj okkur inn ef aðild er hafnað í þjóðaratkvæðagreiðsl og í öðru lagi þá munu væntanlega flokkar með það kosningaloforð að segja okkur aftur úr ESB sigra í næstu þingkosningum þar á eftir ef ESB hefði geð í að taka okkur inn gegn vilja meirihluta þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Því fengi ESB einfaldlega úrsögn frá okkur eftir næstu þingkosningar.

 


Athugasemd til Tryggva Gíslasonar sem er færi inn í mitt blogg

Tryggvi, þú ert einn af þeim mönnum sem ég hef fylgst með á minni löngu ævi, allar götur frá því þú varst fréttamaður á góðu gömlu gufunni og alltaf haft dágott álit á þér.

Að ofan kemur þú inn á eitt mikilvægasta hlutverk þeirra sem hafa verið kjörnir til trúnaðarstarfa á Alþingi. Ég veit, og það vitum við öll, að Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir tók við skelfilegasta búi sem nokkur Ríkisstjórn Íslands hefur fengið til úrlausnar. Þessi Ríkisstjórn hefur unnið þrekvirki en eflaust orðið oft á og ekki ráðið við öll verkefnin. Ég ber ómælda virðingu fyrir þeim Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni, það eru þau tvö sem með órofa samstöðu  eru að draga okkur upp úr feni hrunsins. Mér finnst grátlegt að heyra og sjá stjórnarandstöðuna á þingi, þar er engin jákvæð rödd til, aðeins gamaldagsnöldur eins og best þótti á Hriflutímanum. Þó ég taki þannig til orða er ég þar engan veginn að vega að einum framsæknasta stjórnmálamanni Íslands fyrr og síðar, Jónasi frá Hriflu.

En stjórnarandstaðan á Alþingi er sífrandi hjörð vælukjóa sem halda að það eitt sé pólitík minnihlutans að vera sífellt á móti. Þeir eru vissulega samtaka þar Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins og Þór Saari talsmaður Hreyfingarinnar sem öllu ætlaði að breyta, allt ætlaði að bæta. 

Af hverju hefur Framsóknarflokkurinn ekki bætt við sig nokkru fylgi í skoðanakönnunum?

Af því að maðurinn sem áttu mesta möguleika í íslenskri pólitík til að hefja sig yfir dægurþrasið og gefa íslenskri pólitík nýjan tón, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sökk á kaf í þraspyttinn og lítilmennskuna, hann eyðilagði gjörsamlega möguleika Framsóknarflokksins til að verða endurnýjað afl í íslenskri pólitík og byggja aftur á samvinnuhugsjóninni sem á tvímælalaust að endurreisa á Íslandi. En arftaki Jónasar, Hermanns, Eysteins og Steingríms  kaus í þess stað að verða frosinn þrasbelgur sem hefur ekki bætt neinu við fylgi þess flokks sem kaus hann sinn foringja.

Sjálfstæðisflokkurinn er á algjöru valdi manns sem var eitt sinn glæstur foringi, Davíð Oddsson. Veikindi hans eru staðreynd, hann skilur ekki sinn vitjunartíma og þeir sem gerðu hann að ritstjóra Morgunblaðsins eru óhappamenn Íslands. Landfundur Sjálfstæðisflokksins sat skellihlæjandi undir ömurlegri ræðu Davíðs Oddssonar þegar bæði fyrrum fylgismenn hans og andstæðingar fylgdust með og hugsuðu það sama; hann átti skilið betra en að gera sjálfan sig að trúði

 Og þessi sami landsfundur kaus aftur drenginn úr Garðabæ með silfurskeiðina í munninum sem formann sinn, drenginn sem í dag þorir ekki að kvaka eitt orð nema fá til þess leyfi frá Hádegismóum. Þetta er flokkurinn sem hafði ekki vit á því að kjósa sem foringja sinn þrautreyndan mann til sjós og lands, Kristján Þór Júlíusson fyrrum bæjarstóra og sjómann. Mann með þá reynslu sem er mikilvæg fyrir þann sem tekur að sér forystuhlutverk í íslenskri pólitík.

Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum á það fámenna lið sem telur sig til Hreyfingarinnar, Þetta ruglulið sem ætlaði öllu að bjarga en eru í dag ekkert annað en innantómir þrasbelgir sem koma ekki fram með eitt einasta jákvætt kvak.

En hvers vegna er ég að harma það að flokkar, sem ég fylgi ekki, hafa  verið svo seinheppnir í að velja sér lélega forystu? Ætti ég ekki að vera ánægður með það að dusilmenni séu í forystu í mínum andstöðuflokkum?

Nei, svo langt frá því. Við þurfum öll á því að halda að hinir víðsýnustu og hæfustu séu í forystu í öllu þeim öflum og flokkum sem fulltrúa eiga á Alþingi. Það er höfuðnauðsyn til að við getum myndað öfluga Ríkisstjórn til að takast á við þau vandamál sem þjóðin glímir við. 

Hinsvegar er ég nú svo gamall sem á grönum má sjá; mér finnst vandamál íslensku þjóðarinnar i dag ekki vera nema stormur í vatnsglasi miðað við hvaða erfiðleika var við glíma fyrr á árum.

Tryggvi, þetta átti aðeins að vera stutt athugasemd en orðið nokkuð lengri en ég ætlaði. Taktu það ekki illa upp þó ég afriti hana og lími inn í eigið blogg. 


Skæruliði sestur í Ríkisstjórn í annað sinn

Þessi tilraun, að vingast við skæruliða með því að bjóða honum til stofu, er dæmd til að mistakast. Ögmundur Jónasson er eitt allsherjar "ég, um mig, frá mér, til mín" maður sem hófst til áhrifa sem formaður BSRB, samtaka þar sem hann varð algjör einræðisherra, nokkuð sem var óhollt fyrir hans stóra egó. Guðrún Helgadóttir, fyrrum alþingismaður og forseti Alþingis, ber alla ábyrgð á því að Ögmundur varð þingmaður Alþýðubandalagsins, vann  ætíð sem minnihlutamaður á Alþingi, það var hans staður, annað getur hann ekki.

Ég segi enn og aftur; þetta er dæmt til að mistakast að reyna að berja í brestina með því að lúta skæruliðanum og hans herflokki.  Ögmundur er ekki eini skæruliðinn sem er innan  borgarhliðsins, þar situr einnig erkiíhaldið Jón Bjarnason. Vera hans og framkoma í Ríkisstjórninni hefði átt að sýna Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að þetta bragð, að taka Ögmund í Ríkistjórnina, getur engu breytt til batnaðar.

Hvernig hagaði Jón Bjarnason sér þó hann væri ráðherra í Ríkisstjórninni?

Jón Bjarnason gekk á mála hjá einræðisherra Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddssyni ritstjóra Morgunblaðsins. Lét birta forsíðuviðtal við sig í Morgunblaðinu þar sem hann fór með ósannindi og dylgjur um það út á hvað viðræðurnar við Evrópusambandið gengju. Þeir vissu það báðir, Jón og Davíð, að allt það sem Jón sagði efnislega um viðræðurnar var þvættingur og ég  nota ekki sterkara orð en ósannindi og skrumskæling um máflutning Jóns.

Ætti þetta ekki að sýna að það er engin trygging á því að ráðherrar sýni Ríkisstjórninni hollustu og séu heiðarlegir í sínum störfum þó þeir séu ráðherrar? Dettur nokkrum manni það í hug annað en þannig, eins og Jón,  muni Ögmundur Jónasson starfa?

Þetta er fullreynt, Vinstri grænir eru ekki samstarfshæfir í Ríkisstjórn. Kaldhæðnin er sú að minnihlutinn á Alþingi hefur ekkert að bjóða annað en þras og upphrópanir. Ef þessi Ríkisstjórn segir af sér er ekkert annað framundan, ef mynda á nýja Ríkisstjórn, en að Vinstri grænir og núverandi stjórnarandstaða myndi þá stjórn. Dálagleg framtíðarsýn eða hitt þó heldur!

Það var dapurlegt að hlusta á foringja stjórnarandstöðunnar á Alþingi í gær. Allt við það sama, gamla þrasið og bullið um að allt sé ómögulegt, hvergi örlaði á jákvæðum málflutningi.

Eru fylgjendur Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar stoltir af foringjum sínu?


Eigum við Íslendingar allan arðinn af virkjunun okkar?

Eitt af því sem kom fram hjá Guðríði Lilju Grétarsdóttur, formanni þingflokks Vinstri grænna, þegar hún lýsi yfir eindreginni andstöðu við að útlendingur gæti eignast hlut í Magma Energy, var að þá mundu þessir útlendingur eða þetta útlenda fyrirtæki fá arð af sínu hlutafé, þá færi arður af íslensku orkufyrirtæki, virkjun, úr landi. Hún vildi að við Íslendingar ættum þetta orkuver og tryggja þar með að arðurinn yrði kyrr innanlands. Er þetta ekki gott og háleitt markmið, eigum við ekki Landvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, Orkubú Vestfjarða svo nokkur séu nefnd. Er það ekki tryggt að allur arður af þessum orkufyrirtækjum verður kyrr í landinu? Er þetta ekki einfalt mál, það eiga engir útlendingar hlutafé í þessum fyrirtækjum svo þannig hlýtur það að vera eftir skilgreiningu Guðfríðar Lilju, svo engir útlendingar fá neinn arð af hlutafé í þessum fyrirtækjum.

Ég vildi að satt væri, að allur arður af öllum okkar orkufyrirtækjum yrði kyrr í landinu, það munar um minna.

En því miður. Við byggingu allra orkuvera Íslands þurftum við að fá lán í útlöndum, ekki aðeins að borga lánin aftur heldur einnig vexti á hverju einasta ári.

Eftir því sem ég veit best skulda íslensk orkufyrirtæki 600 milljarða króna í dag. Ekki veit ég hvernig skiptingin er milli innlendra og erlendra lána en mér finnst ekki óeðlilegt að erlendu lánin séu 500 milljarðar. Af þessum lánum þarf að sjálfsögðu að borga vexti. Hvað skyldi það vera háar upphæðir árlega?

Gefum okkur að erlendu lánin, 500 milljarðar, séu á 5% vöxtum. Hvað gerir það mikið í íslenskum krónum? Getur verið að það séu 25 milljarðar á ári sem við borgum úr landi árlega sem vexti?

Við getum allavega hrósað happi að við erum ekki að borga einhverjum útlendingum arð af áhættufjármagni, hlutafé, sem þeir vilja leggja í íslensk orkufyrirtæki.

Að vísu er það svo að framlagt hlutafé er áhætta þess sem það leggur fram, ef greiðslufall verður hjá orkufyrirtækinu verður það tap útlendingsins að eiga í því hlutabréf. En ef féð frá útlöndum er tekið að láni verður að greiða það til baka hvað sem tautar og raular.

En við Íslendingar viljum vera skilamenn svo það skiptir víst engu máli, ekki að mati órólegu deildarinnar hjá Vinstri Grænum.

Og þeir hafa hagfræðing í sínum hópi, sá hlýtur að vita sínu viti eða hvað?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 113870

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband